news

1. maí og Listahátíð barna

29. 04. 2019

Komið þið sæl kæru foreldrar og vinir og gleðilegt sumar

Þá fara síðustu dagar í apríl að ganga í garð og handan við horn heilsar maí. Þann 1. maí er leikskólinn lokaður en opnar aftur fimmtudagsmorguninn 2. maí. Nú er síðustu lotu í Hjallískum þáttum, Áræðnilotunni lokið. Við á Velli erum svo heppin að vera með Mátt málsins sem er áætlun í Markvissri málörvun. Í þeirri áætlun eigum við tvær lotur eftir fram að sumarfríi þ.e. upprifjunarlotuna og vor- og sumarlotuna sem er nú hafin á Velli. Í vor- og sumarlotunni skoðum við ýmislegt sem tengist þessum árstíðum. Í orðaforðakennslunni ætlum við að leggja áherslu á ,,umhverfi úti‘‘ og ætlum við að reyna að vera mikið úti með börnin þannig að þau njóti þess að vera úti og skynji árstíðir og veðurfar, gróður og dýralíf og uppgötvi þannig þá einstöku fegurð sem náttúran hefur uppá að bjóða. Í hljóðainnlögn er hljóð vikunnar I og í tákn með tali eru táknin ,,moka‘‘ og ,,fata‘‘ tákn vikunnar. Í viðbót við þetta verður fullt af fleiri dásamlegum verkefnum og skemmtileg heit með okkar yndislegu nemendum í komandi viku. Gleði og gaman.

Þess ber að nefna að í þessari viku nánar tiltekið næstkomandi fimmtudag 2.maí verður Listasýning barna í Reykjanesbæ sett í Duus húsum og verður sýningin opin öllum næstkomandi helgi. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Nemendur á Velli hafa tekið virkan þátt í því að setja þessa sýningu saman með því að föndra frábær listaverk sem er vert að skoða næstu helgi. Við hvetjum alla að kíkja á verkin, sýninguna og dagskrána sem verður um þessa komandi helgi. Sjá má dagskrána á síðu Reykjanesbæjar.

Eigið frábæra viku kæru vinir

© 2016 - Karellen