Innskráning í Karellen
news

Dagur íslenskrar tungu

16. 11. 2018

Til hamingju með daginn kæru vinir. Í dag er Dagur íslenskrar tungu. Þetta er íslenskur hátíðardagur og er hann alltaf haldinn þann 16.nóvember ár hvert, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar sem var frægt íslenskt skáld sem lagði mikla rækt við móðurmálið, íslensku. Að leggja rækt við málið erum við á Velli einnig dugleg í og leggjum mikinn metnað í það að efla okkar nemendur í íslenskunni. Í sambandi við það erum með öfluga áætlun í markvissri málörvun sem heitir Máttur Málsins. Sú áætlun hófst hér á Velli sem þróunarverkefni árið 2011 og er í dag okkar leið til að kenna og efla íslenskuna í leik og starfi. Í þessari áætlun eflum við orðaforða barna á markvissan hátt, erum með hljóðainnlögn í hverri viku og eflum hljóðkerfisvitund barna með að æfa hugtakaskilning reglulega og markvisst. Elstu nemendurnir okkar eru einnig í stafainnlögn og stærðfræðiinnlögn. Í viðbót við þetta bætum við Tákn með tali þar sem sú aðferð reynist afar áhrifarík sem stuðningur við málið. Allt þetta leggjum við mikið kapp á að gera vel svo nemendurnir okkar öðlist góðan grunn í okkar fagra máli, íslenskunni. Að lokum læt ég fylgja fallegt íslenskt ljóð sem Þórarinn Eldjárn samdi sem ég tel að eigi vel við í dag. Enn og aftur til hamingju með daginn.

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn - nema ég og þú.

Þórarinn Eldjárn



© 2016 - Karellen