Innskráning í Karellen
news

Gott sjálfstraust, betri líðan.

08. 10. 2018

Sæl veriði kæru vinir. Vonandi eru þið búin að hafa það gott síðustu daga. Síðasta föstudag var sameiginlegur starfsdagur alla Hjallastefnuskóla en þá hittust allir kennarar og eyddu deginum saman í endurmenntun og fræðslu.

Núna hefst ný vika með nýjum áherslum, nýjum tækifærum til að hafa gleði og gaman. Áfram höldum við í Sjálfstæðilotunni og er lotulykill þessarar viku orðið "Sjálfstraust". Sjálfstraust er eins og nafnið gefur til kynna það traust sem við berum til okkar sjálfra til að leysa það vel af hendi sem fyrir liggur. Segja má að traustið byggist á því áliti sem við höfum á okkur sjálfum sem manneskjum. Við viljum að nemendurnir okkar hugsi vel til sjálfs síns og byggi upp gott sjálftraust því við erum sannfærð um að það muni skila þeim langt í lífinu. Við viljum að nemendurnir okkar séu stolt og ánægð af því sem þau eru og hafi trú á eigin getu. Þetta æfum við markvisst.

Í Mætti Málsins, okkar markvissu málörvun, höldum við áfram okkar striki og í þessari viku kynnum við nýtt orðaforðahugtak þ.e. "Litir". Það verður því hægt að segja það með sanni að næstu þrjár vikur verða nokkuð litríkar hér á Velli. Hljóð vikunnar er hljóðið "P" og í Tákn með tali eru táknin "Lita" og "Mála" tákn vikunnar. Að efla hugtakaskilninginn þ.e.a.s. rím-samsett orð-margræð orð-fornöfn og fleira heldur sínu sessi hjá nemendunum okkar sem eru 3-6 ára og stafainnlögnin er á góðu skriði hjá okkar elstu nemendum.

Að lokum minnum við á foreldrakaffið okkar sem verður næstkomandi fimmtudag. Á yngri kjarna verður kaffið milli kl.14:00 og 15:30. En hjá eldri, á Bláa, Græna, Rauða og Gula kjarna, verður kaffið á milli kl.8-00 og 9:30. Vonandi sjáið þið ykkur fært um að mæta kæru foreldrar.

Eigið yndislega viku.

© 2016 - Karellen