Innskráning í Karellen
news

Hjálpsemi er dyggð

12. 11. 2018

Sæl veriði. Áfram höldum við í Samskiptalotunni okkar. Orð vikunnar er orðið "Hjálpsemi ". Að kenna þessa dyggð er okkur afar mikilvægt og gefandi. Eins og mörg ykkar vita að þá er hjálpsemi að verða öðrum að liði, gera gagnlega hluti sem geta skipt sköpum. Hjálpsemi felst i því að gera eitthvað fyrir aðra sem þeir geta ekki gert sjálfir. Smáviðvik geta gert lífið auðveldara og skemmtilegra bæði fyrir þann sem veitir hjálpina og fyrir þann sem þiggur aðstoðina. Hjálpsemi snýst um að gefa fólki það sem það þarfnast, ekki einungis það sem það vill. Hjá öllum geta komið tímar sem við þurfum á aðstoð að halda og þá er nú gott að geta beðið um hjálp. Við æfum okkur í hjálpsemi með því að vera vakandi fyrir þörfum annarra. Með því að vera vakandi fyrir því hvenær þarf að aðstoða vini, einstaklinga í fjölskyldunni og þá sem við þekkjum ekki. Við viljum vera dugleg í því bjóða fram aðstoð þegar við sjáum að hennar er þörf. Þetta er áherslur í kynjanámskránni þessa vikuna.

Í Mætti Málsins erum við enn að efla orðaforða barna okkar í Fatnaði. Hljóð vikunnar er harða G (Gluggi-Gogga-Gugga...) og í Tákn með tali eru tákn vikunnar táknin "Vettlingar" og "Sokkar". Í viðbót við þetta halda kennarar áfram að efla hugtakasskilning og elstu börnin halda áfram í stafainnlögninni.

Þess ber að geta á föstudaginn næsta er dagur íslenskrar tungu. Það er íslenskur hátíðardagur en leikskólinn verður samt sem áður opinn. Við munum halda upp á þennan dag í söngstund fyrir hádegi ásamt því að kennarar vinna verkefni með börnunum í hópatímum. Þessum degi er ávallt fagnað á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember, og er vel við hæfi að fagna deginum í leikskólanum þar sem við sjáum málið fæðast og auðgast á hverjum degi.

Eigið góða viku kæru vinir

© 2016 - Karellen