Innskráning í Karellen
news

Kraftur er orð vikunnar

27. 03. 2023

Sæl veriði kæru foreldrar og vinir.

Í dag hefst önnur vika í áræðnilotu. Lotulykill vikunnar er kraftur. Að hafa kraft er okkur öllum mikilvægt þá bæði líkamlega sem og andlega til að takast á við það sem lífið hefur uppá að bjóða. Hægt er að gera ýmsar æfingar til að þess að börnin/einstaklingar nái í frumkraftinn sinn sem oft er búið að bæla og umbúðarvefja þannig að viðkomandi þora oft ekki að nota kraftinn sinn nema með duldum leiðum. Til dæmis er hægt að nota húsgögnin á kjarnanum í kraftæfingar, t.d. að klifra upp á borð og stóla og stökkva niður á dýnur. Einnig má leyfa hlaup og hopp þar sem pláss er gott og gjarnan dýnur á gólfum, hlaupa öskrandi af fullum krafti, láta sig detta og veltast um, kitla og hlæja og hrópa og ærslast, allt í gegnum leikinn. En svo má ekki heldur gleyma því að það krefst líka krafta og kjarks að standa uppá mottu og segja frá sjálfum sér, fara með stuttan leikþátt, syngja fyrir vini og fleira og fleira.

Í orðaforðakennslu þessa viku verður áhersla lögð á ,,tíma’’. Dæmi um orð sem tengjast tíma er á morgun, í dag, kvöld, dagur, nótt og sumar. Hljóð/stafur vikunnar er ,,mjúka g,, (t.d. auga, saga, vega og laga). Í Tákn með tali eru tákn vikunnar táknin ,,dagur’’ og ,,nótt’’. Þula vikunnar er ,,Maður og mús’’ og söngvar vikunnar eru ,,Dagar og mánuðir’’ og ,,Afmælisleikur’’.

Eigið dásamlega viku kæru vinir og vinkonur.

© 2016 - Karellen