Innskráning í Karellen
news

Orð vikunnar er Framkoma

18. 09. 2017

Sæl veriði okkar kæru foreldrar og vinir

Þessa vikuna er orð vikunnar FRAMKOMA en það er okkar fjórði og síðasti lotulykill í Aga lotunni okkar. Það er aldeilis búið að vera gaman að fylgjast með nemendunum í hinum og þessum agaæfingum í leik og starfi undanfarnar vikur. Mikil gleði og gaman. Því það að æfa aga þarf sko ekki að vera leiðinlegt. Börnin sækja í röð, reglu og rútínu og er það eitt af okkar aðalsmerkjum. Þess ber einnig að nefna að Aga lotan er frumstig félagsþjálfunar.

Í Mætti málsins (markvissri málörvun) er komið nýtt hugtak í orðaforðakennslunni okkar, "Líkami og hreyfing". Það verður gaman að sjá nýtt orðaforðatré myndast með þessu hugtaki. Við hvetjum ykkur foreldra að taka þátt í því að setja "lauf" á tréð hjá ykkar barni. Kannski er eitthvað eða einhver orð sem þið hafið verið að tala um í tengslum við Líkama og hreyfingu. Þá endilega setjið orðið/orðin á blað sem verður að laufblaði sem er tilvalið að leyfa barninu að setja á tréð næst þegar það kemur í skólann. Með þessu þá vinnum við saman að efla orðaforða barnanna. Hljóð vikunnar er "N" og tákn vikunnar í Tákn með tali eru táknin "Fyrst" og "Svo". Áfram halda 5 ára börnin okkar í stafainnlögninni og hugtakaþjálfun heldur sínu sessi. Eigið yndislega viku kæru vinir.

© 2016 - Karellen