Innskráning í Karellen
news

Umhyggja er orð vikunnar

20. 02. 2024

Góðan daginn kæru vinir

Í síðustu viku hófst Vináttulota hér hjá okkur á Velli. Vináttulotan er þriðja stig félagsþjálfunar hjá okkur í Hjallastefnunni. Hún er beint framhald af bæði samskipta- og jákvæðnilotunni og í reynd hástig þeirrar félagslegu jákvæðni sem þjálfuð hefur verið. Í þessari lotu styrkjum við og eflum vináttu á allar lundir. Einnig er mikilvægt að vinna með skilgreiningar á vináttunni, álit barnanna á vináttunni og hvað það þýðir að vera vinur eða vinkona. Fjórir lotulyklar eru í þessari lotu líkt og öðrum lotum hjá okkur en fyrsti lotulykillinn er hugtakið félagsskapur.

Í þessari viku höldum við áfram með vináttulotuna og er orð vikunnar umhyggja. Að sýna umhyggju er góður kostur að bera og hægt er að sýna hana á margan máta. Það er til dæmis hægt að sýna umhverfinu umhyggju, leikskólanum sínum, fjölskyldu sinni, kennurum sínum og samnemendum svo eitthvað sé nefnt. Þetta orð er stórt og er einn af mikilvægum þáttum í vináttunni. Í leikskólanum lærum við til dæmis að þiggja umhyggju frá öðrum og þróa hæfileikann til að veita öðrum umhyggju. Vinátta gengur meðal annars út á það að vera góður við félaga sína og virða þá. Við á Velli æfum börnin að mynda vináttutengsl, styrkja þau og efla og gætum þess að barni finnist það ekki skilið útundan, að hvert einasta barn finni að það á vin, eigi leikfélaga í leikskólanum. Það er markmið sem unnið er að, alltaf.

Í orðaforðakennslu þessa vikuna verður tekið fyrir lýsing (lýsingarorð). Hljóð vikunnar er ,,Ö’’ og í tákni með tali eru táknin duglegur og góður. Þula vikunnar er ,,Baggalútur’’ og söngvar vikunnar eru ,,Vinátta’’, ,,Skýin’’ og ,,Vikivaka’’.

Eigið góða daga framundan


© 2016 - Karellen