Innskráning í Karellen
news

Vináttulota hefst

12. 02. 2018

Sæl veriði. Snjórinn tók aldeilis vel á móti okkur í morgun og gladdi margan hverjan. Börnin dásama snjóinn og elska að leika í honum. Fyrir utan snjóinn og sólina sem skín að þá er bolludagur í dag og auðvitað verða bollur á boðstólnum í dag. Á morgun er Sprengidagur og svo er Öskudagurinn á miðvikudaginn en þann dag er nemendunum frjálst að koma í búning, ef þau vilja. Á föstudaginn næstkomandi munum við halda uppá Konudaginn og bjóða í köku milli kl.14:00-15:30 inná kjörnum. Mæður, ömmur, frænkur og systur eru sérstaklega hvattar að mæta en auðvitað má karlkynið koma með líka ef þeir vilja.

Vináttulotan sem er fimmta lotan í kynjanámskránni okkar hefst í dag. Hún er þriðja stig félagsþjálfunar og er beint framhald af bæði Samskipta- og Jákvæðnilotunni. Í þeim lotum sem og í þessari Vináttulotu að þá styrkjum við og eflum vináttu á allan hátt. Við förum í vinaleiki og vinnum með skilgreiningar á vináttunni, álit barnanna á vináttunni og hvað það þýðir að vera vinur eða vinkona. Fyrsti lotulykill þessarar lotu er hugtakið "félagsskapur".

Í Mætti Málsins kynnum við nýtt hugtak í orðaforðanum og setjum upp nýtt orðaforðatré tengt "Húsbúnaði og Búsáhöldum". Hljóð vikunnar er hljóðið "HL" (Hlusta-hlera-hlæja-hlátur...) og í Tákn með tali tökum við fyrir táknin "Sitja" og "Hljótt". Elstu nemendurnir okkar halda áfram í stærðfræðinni. Áfram höldum við í markvissri málörvun á öllum stigum. Allt í leik og söng og gleði.

Eigið frábæra viku kæru vinir

© 2016 - Karellen